RAFMENNT tekur þátt í samstarfi um að efla og kynna háskólanám eftir iðnnám og aðra starfsmenntun

Frá undirrituninni í dag.
Frá undirrituninni í dag.

 

Í dag, mánudaginn 27. maí, undirritaði framkvæmdastjóri RAFMENNTAR, Þór Pálsson, viljayfirlýsingu um samstarf um að efla og kynna háskólanám með atvinnutengd lokamarkmið, eftir iðnnám og aðra starfsmenntun. Fulltrúar Háskólans í Reykjavík, Samtaka iðnaðarins, Tækniskólans, Iðunnar fræðsluseturs og RAFMENNTAR undirrituðu samkomulagið að viðstaddri Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.

 

Markmiðið með samstarfinu er m.a. að fjölga nemendum í iðnnámi, sem og þeim sem byggja háskólanám ofan á iðnnám. Einnig að efla upplýsingagjöf, m.a. með því að koma því kröftuglega á framfæri hversu góður undirbúningur iðnnám er fyrir margvíslegt tækninám á háskólastigi og hversu eftirsóttir starfskraftar með slíka menntun eru í atvinnulífinu. Síðast en ekki síst snýst samstarfið um að kortleggja þær leiðir sem til eru á milli þessara skólastiga í dag og að auðvelda og skilgreina leiðir á milli þeirra.

 

Um þróunarverkefni er að ræða sem á við iðnmenntun í byggingar-, málm-, vél-, bíl- og rafiðngreinum og háskólanám í Háskólanum í Reykjavík sem hentar í framhaldi af iðnnámi í þeim greinum. Um leið er stefnt að því að verkefnið geti orðið fyrirmynd sem hægt verði að yfirfæra á aðrar iðngreinar og starfsmenntun.