Rafiðnaðarmenn hafa byggt upp og rekið umfangsmikið endurmenntunarkerfi frá árinu 1975. Endurmenntunarnefndir rafiðna og rafeindavirkja stofnuðu Rafiðnaðarskólann 20. september 1985. Lengst af báru nefndirnar ábyrgð á fræðslustarfinu. Árið 1993 var formlega stofnað til skólanefndar Rafiðnaðarskólans sem bar þá ábyrgð á starfseminni. Árið 2004 var rekstri skólans breytt í hlutafélag "Rafiðnaðarskólinn ehf" þar sem hluthafar voru tveir, RSÍ og SART, hvor um sig með 50% hlut.

Rafiðnaðarskólinn var fyrst til húsa í Skipholti (á tveimur stöðum), síðan í Skeifunni 11b frá 23. október 1989 til 15. desember 2009, fyrst í stað aðeins á 3. hæðinni en svo bættist 2. hæðin við.  Þann 15. desember 2009 flutti Rafiðnaðarskólinn á Stórhöfða 27 á 3. hæðina. Fyrsta hæðin bættist við haustið 2010 sem var innréttuð sérstaklega með þessa starfsemi í huga.

Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins var stofnuð árið 1996 til að halda utan um umsýslu með sveinsprófum og námssamningum ásamt því að vera leiðandi í endurskoðun á grunnnámi rafiðnaðarmanna. Skrifstofan sá einnig um að kynna nám í rafiðnaði fyrir ungu fólki og aðstoða það með frítt námsefni. Á vefnum rafbok.is er allt námsefni sem notað er til kennslu í rafiðngreinum í framhaldsskólum aðgengilegt nemendum þeim að kostnaðarlausu.

Á vordögum 2018 ákváðu stjórnir Rafiðnaðarskólans og Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins að sameina þessi tvö félög í eitt undir merki RAFMENNTAR fræðsluseturs rafiðnaðarins og færa þannig öll verkefni sem snúa að menntamálum rafiðnaðarmanna, frá upphafi náms til loka meistaraskóla og síðan þeirrar endurmenntunar sem félagsmenn þurfa stöðugt að vera að nýta sér, í eitt félag. Breytingunum er ætlað að efla þjónustu við félagsmenn og nýta betur það fjármagn sem kemur inn í menntasjóð til að auka fjölbreytileika nýrra námskeiða og kynningu á nýrri tækni. RAFMENNT er í jafnri eign RSÍ (Rafiðnaðarsamband Íslands) og SART (Samtök rafverktaka).