Meistaraskólinn

Iðnmeistaranám á sér stoð í iðnaðarlögum svo og lögum og reglugerðum um framhaldsskóla. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla er menntamálaráðuneytinu skylt að halda uppi framhaldsnámi fyrir iðnsveina til meistaraprófs í því skyni að veita aukna þekkingu í starfsgrein sinni, stjórnun og rekstri fyrirtækja.  Í reglugerð um framhaldsskóla segir að meistaranám skuli skipuleggja sem eðlilegt framhald iðnnáms og að það skuli, eftir því sem við verði komið, tengt iðnfræði- og tæknifræðinámi. Ný námskrá iðnmeistaranáms hefur tekið gildi og er meistaranámið skipulagt skv. henni frá og með janúar 2019. Þeir sem hófu nám skv. eldri námskrá færast yfir í þá nýju.

Markmið meistaranáms er að veita fræðslu og þjálfun þeim sem lokið hafa sveinsprófi svo þeir geti fengið meistarabréf og staðið fyrir sjálfstæðum rekstri í iðngrein sinni, stjórnað verkum og kennt nýliðum vinnubrögð, öryggisreglur og iðnfræði.

 

"Óttalegur frumskógur" eru orð sem hafa verið notuð til að lýsa því hversu erfitt geti verið fyrir iðnaðarmenn að vita hvar fá eigi svör við ýmsum spurningum sem þá snerta. Þetta stafar m.a. af því að málefni iðnaðarmanna eru a.m.k. á verksviði þriggja ráðuneyta, þ.e. iðnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Í menntamálaráðuneytinu er fjallað um menntun iðnaðarmanna, m.a. námssamninga og sveinspróf. Í iðnaðarráðuneytinu er að fá upplýsingar um starfsréttindi meistara, sveina og nema, útgáfu sveinsbréfa, sem er í ráðuneytinu, útgáfu meistarabréfa, sem lögreglustjórar sjá um að fenginni umsögn iðnráðs, og starfsréttindi iðnaðarmanna í öðrum EES-ríkjum. Auk þess heyrir Löggildingarstofan undir ráðuneytið og löggildir hún rafverktaka á grundvelli rafmagnsöryggislaga í framhaldi af meistarabréfi. Undir umhverfisráðuneytið fellur hins vegar löggilding iðnmeistara á grundvelli skipulags- og byggingarlaga og námskeið sem haldin hafa verið af því tilefni.

Hér má finna nokkrar greinar úr iðnaðarlögum.

Eingöngu löggiltir rafverktakar mega taka að sér rafverktöku og/eða annast viðgerðir á hvers kona rafföngum. Upplýsingar um löggildingu rafverktaka, kröfur um menntun, starfsreynslu og fleira varðandi rafmagnsöryggi má finna á vef Mannvirkjastofnunar

 

Iðnmeistarar gegna ólíkum störfum og hlutverkum og vinna við mismunandi aðstæður allt eftir eðli starfseminnar, stærð fyrirtækis og stöðu meistara innan fyrirtækis. Í litlu iðnfyrirtæki af þeim toga sem hvað algengust eru hér á landi er meistarinn allt í senn; atvinnurekandi, stjórnandi, faglegur leiðtogi og kennari eða leiðbeinandi. Í stærri fyrirtækjum er um að ræða hreinni verkaskiptingu og hefur það færst í vöxt að viðskiptamenntað fólk sjái um fjármálahlið fyrirtækisins en meistarar gegni aðallega stjórnunarstörfum og faglegri umsjón og leiðsögn.