Um meistaranámið

Iðnmeistaranám í rafiðngreinum er 68 einingar (framhaldsskólaeiningar) nám á 4. hæfniþrepi íslensks hæfniramma um menntun. Náminu er skipt upp í tvo hluta, A og B-hluta.

Í A-hluta eru grunnáfangar í rekstri, stjórnun og stofnun fyrirtækja, samtals 27 einingar. Í B-hluta eru einnig áfangar tengdir fyrirtækjum og rekstri auk fagtengds efnis, samtals 45 einingar.

Nemendur taka A-hluta námsins og 11 einingar af B-hluta námsins í framhaldsskóla sem býður upp á það og er það ýmist í dreifnámi/fjarnámi eða staðbundnum lotum.

Skólar sem bjóða upp á meistaranám í almennum hluta:

Tækniskólinn

Verkmenntaskólinn á Akureyri

RAFMENNT annast kennslu í faggreinum B-hlutans, samtals 30 einingar. Hægt er að skrá sig hér fyrir neðan eða skrá sig á inn í námskeiðunum sjálfum.

Meistaranámið miðar að því að gera nemendur hæfa til að reka fyrirtæki skv. 10. grein iðnaðarlaga nr. 42/1978 og vera færa um að sjá um leiðsögn og kennslu iðnnema í eigin iðngrein. Hver maður getur leyst til sín meistarabréf ef hann fullnægir skilyrðum 3. gr. laganna, hefur lokið sveinsprófi, unnið síðan undir stjórn meistara í iðngrein sinni eitt ár minnst og jafnframt lokið meistaraprófi í iðninni frá meistaraskóla.

Námsmatið á að vera leiðbeinandi fyrir nemendur og gefa þeim möguleika á að fylgjast með eigin árangri. Það skal vera fjölbreytt, s.s. skrifleg próf, verkefni, kynningar og fleira. Lögð er áhersla á verkefnabundið nám þar sem nemendur vinna einir eða í hópi með verkefni tengd sínu fagi.

Nemendur þurfa að ljúka hverjum áfanga fyrir sig með einkunninni 5 að lágmarki. Þeir nemendur sem þess óska geta hafið nám í faggreinum RAFMENNTAR þótt þeir hafi ekki lokið kjarnagreinum A-hlutans. Mælt er með að áfanginn „Grunnur að gæðahandbók“ sé tekinn á fyrstu önn og lokaverkefni hvers hluta er unnið samhliða öðrum áföngum hlutans.

Til að innritast í meistaranám þarf nemandi að hafa staðist sveinspróf í sinni iðngrein.

Náms- og starfsráðgjafi RAFMENNTAR aðstoðar nemendur við skipulag á námi og mælt er með að nemendur hafi samband og bóki viðtalstíma með því að hringja í síma 540-0171 eða senda tölvupóst á netfangið almasif(hjá)rafmennt.is