Bendill er íslensk áhugasviðskönnun sem metur á hvaða sviðum starfsáhugi þinn liggur. Könnuninn byggir á þaulprófaðri hugmyndafræði bandaríska sálfræðingsins John L. Holland þar sem gengið er út frá því að flokka megi áhugasvið fólks í sex mismunandi svið. Vinnumarkaðurinn og þau störf sem þar finnast eru síðan flokkuð á sama hátt og áhugasvið fólks. Könnunin er rafræn og endurspeglar íslenskan vinnumarkað og það námsframboð sem er í boði hér á landi. 

Bendill býður upp á fjórar tegundir kannana sem henta mismunandi aldurshópum og eru það Bendill III og IV sem taka mið af þörfum fullorðinna sem ýmist hyggja á háskólanám eða sem eru á vinnumarkaði.

Könnunin byggist á spurningum um hversu vel eða illa þér líkar athafnir tengdar störfum (t.d. að gera við bíl), námsgreinum (t.d. stærðfræði) og störfum (t.d. bifvélavirki). Um leið og öllum spurningum hefur verið svarað er unnið úr svörunum og niðurstöður liggja fyrir á myndrænan hátt.  Áhugasviðskönnunin hjálpar þér að koma skipulagi á áhugasvið þín og auðveldar þér að átta þig á og ræða um starfsáhuga þinn og eykur þannig sjálfsþekkingu þína. 

Ef þú hefur áhuga á að taka áhugasviðskönnun hafðu þá samband við náms- og starfsráðgjafa RAFMENNTAR sem aðstoðar þig við fyrirlögn, túlkun og næstu skref.