Nám í rafiðnaði er lykillinn að spennandi og fjölbreyttum störfum. Vefurinn www.straumlina.is er upplýsingavefur Rafiðnaðarsambands Íslands þar sem m.a. má finna upplýsingar um menntun, störf og framtíðarhorfur í rafiðnaði. 

Nám í rafiðngreinum hefst á sameiginlegu grunnnámi sem hefur það að markmiði að undirbúa nemendur fyrir það fagnám sem þeir síðar velja sér. Grunnnámið tekur að jafnaði fjórar annir og er samtals 120 einingar. Námið skiptist í almennar bóklegar greinar, fagbóklegar greinar og verklegar greinar. Að loknu grunnnámi eiga nemendur að vera færir um að takast á við kröfur í framhaldsgreinum, hafa góða undirstöðuþekkingu á hugtökum og verklagi sem þarf til áframhaldandi náms og geta jafnframt hafið vinnustaðanám

Þær framhaldsgreinar sem standa nemendum til boða að loknu grunnnámi í rafiðngreinum eru rafeindavirkjun, rafveituvirkjun, rafvélavirkjun og rafvirkjun. Nám í þessum greinum tekur að jafnaði átta annir og er samtals 260 einingar, að grunnnáminu meðtöldu. Einhver munur á einingafjölda getur verið á milli námskrár skólanna. Náminu lýkur með sveinsprófi sem gefur réttindi til að starfa í greininni og möguleika á áframhaldandi námi til iðnmeistara.

 

Eftirfarandi framhaldsskólar bjóða upp á nám í rafiðngreinum:

  Grunnnám Rafvirkjun Rafeindavirkjun Rafveituvirkjun Hljóðtækni Kvikmyndatækni
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti X X        
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra X X        
Fjölbrautaskóli Suðurlands X X        
Fjölbrautaskóli Suðurnesja X X        
Fjölbrautaskóli Vesturlands, Akranesi X X        
Tækniskólinn skóli atvinnulífsins X X X X X X
Verkmenntaskólinn á Akureyri X X X      
Vermenntaskóli Austurlands X X        

 

Störf í rafiðnaði eru fjölbreytt og til frekari glöggvunar má finna starfslýsingar fyrir rafiðn- og tæknigreinarnar: rafeindavirkjun, rafveituvirkjun, rafvélavirkjun, rafvirkjun, hljóðtækni og hljóðhönnun.