Kvikmyndafræði I (KVFR1KT04)

Í námskeiðinu eru kynnt til sögunnar lykilhugtök og aðferðir í túlkun kvikmynda. Farið verður ítarlega í frásagnaruppbyggingu og sviðsmynd kvikmynda, sem og kvikmyndatöku, klippingu, hljóðvinnslu og tónlist. Ræddar verða ólíkar gerðir kvikmynda og sýnd dæmi um heimildar- og tilraunamyndir auk hefðbundinna leikinna kvikmynda. Með kvikmyndasýningunum verða dregin fram þau sérkenni sem einkenna lesefni hverrar viku og þau rædd sérstaklega. Nemendur vinna einnig stutt greiningarverkefni sem byggja á ólíkum nálgunarleiðum á kvikmyndamiðilinn.

Kvikmyndafræði II (KVFR2KT04)

Farið verður í kvikmyndasögu heimsins á nokkuð víðtækan máta. Upphaf kvikmyndagerðar verður skoðað og þróun kvikmyndamiðilsins í fullskapað frásagnarform reifuð. Stór hluti námskeiðsins fer í myndun Hollywood og sögu þess sem miðstöðvar kvikmyndagerðar í hinum vestræna heimi. Saga kvikmyndaveranna, ritskoðun og áhrif hennar á myndun hins klassíska stúdíókerfis verður skoðuð, þá verður farið í breytingar á stúdíókerfinu og þróun þess til dagsins í dag. Kvikmyndasaga annarra þjóða verður tekin fyrir, þar á meðal Íslands og dæmi skoðuð um mikilvægar myndir frá þeim.