Iðnmeistarar gegna ólíkum störfum og hlutverkum og vinna við mismunandi aðstæður allt eftir eðli starfseminnar, stærð fyrirtækis og stöðu meistara innan fyrirtækis. Í litlu iðnfyrirtæki af þeim toga sem hvað algengust eru hér á landi er meistarinn allt í senn; atvinnurekandi, stjórnandi, faglegur leiðtogi og kennari eða leiðbeinandi. Í stærri fyrirtækjum er um að ræða hreinni verkaskiptingu og hefur það færst í vöxt að viðskiptamenntað fólk sjái um fjármálahlið fyrirtækisins en meistarar gegni aðallega stjórnunarstörfum og faglegri umsjón og leiðsögn.

 

Fyrirtækjarekstur Meistari í atvinnurekstri ber ábyrgð á að tilheyrandi lögum sé framfylgt og að fyrirtækið sé rekið á hagkvæman hátt óháð stærð þess og starfsemi. Hvort sem hann vinnur eftirtalda þætti sjálfur eða ræður aðra til þess er endanleg ábyrgð á hans herðum. Hann þarf því að hafa ákveðna grundvallarþekkingu á rekstri og vera fær um að leggja sjálfstætt mat á einstaka þætti.

 

Stefnumótun og áætlanagerð Fyrir sérhvert fyrirtæki þarf að móta stefnu og gera áætlanir til lengri og skemmri tíma. Setja þarf fyrirtækinu eða starfseminni markmið, m.a. um þróun vöru og þjónustu með hliðsjón af möguleikum og kröfum markaðarins. Gera þarf áætlanir um fjárfestingar í tækjum, búnaði, efni og mannafla með hliðsjón af greiðslugetu og skipuleggja framleiðsluferli og sölu til að tryggja hámarksgæði, afköst og afkomu miðað við aðstæður. Í meistaranáminu er gefið yfirlit yfir helstu tegundir áætlana sem gerðar eru í fyrirtækjum og undirstöðuþættir stefnumótunar og áætlanagerðar kynntir. Í valnámi gefst kostur á að fara dýpra í einstaka þætti.

 

Tilboð og verksamningar Mikilvægur þáttur í störfum margra iðnmeistara er að gera formleg, skrifleg tilboð í verk og útbúa verksamninga milli verktaka og verkkaupa. Slík vinnubrögð eru ekki bundin við útboð stórra verkefna á vegum opinberra aðila svo sem á sviði mannvirkjagerðar. Í vaxandi mæli óska einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki eftir tilboðum í stór og smá verk. Gerð tilboða og verksamninga byggir m.a. á nákvæmri greiningu verkþátta og verðlagningu þeirra. Í meistaranáminu er farið í ýmis undirstöðuatriði er varða gerð tilboða og verksamninga. Í valnámi er boðið upp á námsáfanga þar sem viðfangsefnið er tekið fyrir í heild. Í fagnámi sumra iðngreina er gengið enn lengra og nemendur þjálfaðir í gerð raunhæfra tilboða og verksamninga.

 

Fjármálaumsýsla Fyrirtækjarekstur krefst mikillar fjármálaumsýslu þar sem fara skal eftir ákveðnum lögum og reglum. Um er að ræða viðskipti við banka og lánastofnanir, skattayfirvöld, tryggingastofnanir o.fl., gerð fjárhags- og rekstraráætlana, reikningsskil og umsýslu bókhaldsgagna. Nám í Meistaraskólanum á að veita nemum yfirsýn, þekkingu og skilning á undirstöðuþáttum rekstrar og fjármálaumsýslu í fyrirtækjum. Í valnámi er ætlast til að þeir sem þess óska geti gengið lengra, t.d. með námskeiðum um tölvubókhaldskerfi.

 

Stjórnun í fyrirtækjum Störf allra iðnmeistara felast að meira eða minna leyti í skipulagningu og stjórnun.


Verkstjórn/starfsmannastjórnun Í minni fyrirtækjum fer verkstjórn og starfsmannastjórnun oft saman. Sé meistari ekki einyrki fæst hann yfirleitt í ríkum mæli við stjórnun af þessum toga. Hann sér oft um að ráða nýja starfsmenn og setja þá inn í störf og umgengnishætti í fyrirtækinu. Hann skipuleggur verk og hlutast til um verkaskiptingu á milli starfsmanna, annast faglega tilsögn og lítur eftir gæðum og afköstum. Mannþekking og mannleg samskipti gegna lykilhlutverki í starfi verkstjórans. Honum er ætlað að fá það besta út úr hverjum starfsmanni og hann hefur áhrif á starfsanda og líðan starfsfólks á vinnustað. Til hans kasta kemur ef leysa þarf deilur eða ágreining. Í þessu sambandi getur hann þurft að hafa viðtöl af ýmsum toga og stjórna fundum. Hann annast einnig samskipti við viðskiptaaðila t.d. vegna efnisútvegunar og e.t.v. við sérfræðinga sem tengjast starfsemi fyrirtækisins. Verkstjóri ber auk þess ábyrgð á að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað sé í samræmi við lög. Í meistaranáminu er farið all ítarlega í þessa þætti, enda litið svo á að allir meistarar þurfi að vera færir um að taka að sér verkstjórn og starfsmannahald. Einkum er lögð áhersla á að nemendur fái æfingu í samskiptum og samskiptatækni og öðlist dýpri skilning á sjálfum sér og samskiptum við aðra. Í valnámi gefst kostur á frekara námi á sviði verkstjórnar.

 

Verkefnastjórnun Verkefnisstjóri í fyrirtæki annast áætlanagerð fyrir tiltekin verk og hefur með þeim umsjón og eftirlit. Hann áætlar heildarumfang og tímamörk verksins, greinir það í þætti, áætlar efnis- og mannaflaþörf, skilgreinir kröfur um gæði og afköst og ber ábyrgð á að verki ljúki á tilsettum tíma með tilskildum gæðum og innan kostnaðarmarka. Í meistaranáminu fer fram kynning á verkefnastjórnun en segja má að kjarnanámið í heild myndi nauðsynlega undirstöðu undir störf af þessum toga. Auk þess er viðbótarnám í vali á einstökum sviðum verkefnastjórnunar.

 

Innkaupa- og birgðastýring Meðal verkefna iðnmeistara er að skipuleggja og stjórna eða hafa eftirlit með innkaupum og birgða- eða lagerhaldi. Umfang og mikilvægi þessa þáttar er misjafnt eftir iðngreinum og eðli starfseminnar. Í meistaranáminu er ekki tekið á innkaupa- og birgðastýringu nema sem lið í áætlana- gerð og kostnaðarútreikningum. Hins vegar er sérstakur áfangi um þetta efni meðal valgreina.

 

Þjónusta við viðskiptavini Í öllum iðngreinum er um að ræða þjónustu við viðskiptavini en í sumum þeirra byggist starfsemin nær eingöngu á persónulegri þjónustu við neytendur. Meistarinn ber höfuðábyrgð á gæðum þjónustu, hvernig komið er fram við viðskiptavini fyrirtækisins og hvernig er farið að óskum þeirra. Hann þarf að leiðbeina starfsmönnum í þessum efnum ekki síður en í faglegum vinnubrögðum. Í meistaranáminu eru kennd undirstöðuatriði góðrar þjónustu, en einnig eru nokkrir valáfangar tengdir þessu efni sérstaklega.

 

Kennsla, leiðsögn Meistari gerir náms- og starfsþjálfunarsamninga við iðnnema í iðngrein sinni og ber ábyrgð á að þeir fái tilskilda þjálfun í samræmi við lög, reglur og námskrá. Hann kennir nemanum vinnubrögð og meðferð efna og tækja og/eða hlutast til um handleiðslu hans og fylgist með framvindu þjálfunar. Á sama hátt metur meistarinn þjálfunarþörf annarra starfsmanna, leiðbeinir nýliðum og kennir starfsmönnum nýjungar eða sér til þess að það verði gert.

Samskiptaþátturinn er lykilatriði í undirbúningi meistarans sem kennara eða leiðbeinanda. Auk þess á nám í Meistaraskólanum að efla vitund nemenda um fræðsluhlutverk meistara, gefa innsýn í iðnnámskerfið ásamt þekkingu og færni í undirstöðuþáttum verklegrar kennslu.

 

Faglegt leiðtoga- og ráðgjafarstarf Löggilding á starfsheiti og störfum iðnmeistara byggir á þeirri meginforsendu að starfstitillinn tryggi viðskiptavini eða verkkaupanda ákveðin gæði. Í iðnfyrirtæki gegnir meistarinn mikilvægu hlutverki sem faglegur leiðtogi og ráðgjafi. Hann stýrir framkvæmdum, velur efni og verktækni og metur aðstæður, m.a. út frá kröfum umhverfisverndar. Hann ber ábyrgð á gæðum vöru og þjónustu, ráðleggur viðskiptavinum og leiðbeinir starfsmönnum og iðnnemum í faglegum og tæknilegum efnum. Þetta skuldbindur iðnmeistarann til að fylgjast vel með þróun í grein sinni og leita stöðugt meiri þekkingar og færni. Umfang og innihald fagnáms í meistaranámi er í samræmi við mat aðila atvinnulífsins í viðkomandi iðngrein á þörf meistara fyrir faglegt viðbótarnám umfram sveinspróf og starfsreynslu.

Gæðastjórnun er ekki sjálfstætt verkefni í starfsemi iðnmeistara heldur er hægt að beita hugmyndafræði og aðferðum gæðastjórnunar í öllum ofangreindum verkþáttum. Í meistaranáminu eru kynnt grundvallaratriði gæðastjórnunar og geta nemendur dýpkað þekkingu sína með viðbótarnámi í vali.