Brunaviðvörunarkerfi og brunaþéttingar

Lýsing námskeiðsins samkvæmt námskrá: MÖRY4BB02(BA)

Á námskeiðinu læra nemendur um hina ýmsu íhluti brunaviðvörunarkerfa, eiginleika þeirra, notkunarsvið, lagnir og tengingar. Þá er fjallað um öryggis- og brunafræði, reglur um brunaviðvörunarkerfi ásamt uppsetningu og viðhaldi slíkra kerfa. Fylgt er reglugerð um brunavarnir, einnig læra nemendur skil á brunahólfun mannvirkja, hinum ýmsu gerðum brunaþéttinga, eiginleikum þeirra, notkunarsviði og helstu reglum þar um. 

 

Öryggis- og aðgangsstýrikerfi

Lýsing námskeiðsins samkvæmt námskrá: MÖRY4AS02(BA)

Á námskeiðinu er farið í uppbyggingu, forsendur og hönnun sambyggðra öryggis- og aðgangsstýrikerfa. Nemendur fá yfirsýn yfir uppbyggingu innbrotsviðvörunarkerfa og forsendur sem liggja að baki stjórnun og vöktun hurða. Einnig er farið í öryggisstig við vöktun hurða og frágang búnaðar við hurðir. Þá eru mismunandi gerðir aðgangskerfa kynntar, farið í val á aðgangskortum, skilríkjum, lestrartækni og raflyklum og þá möguleika sem slíkur búnaður býður upp á. Þátttakendur fá innsýn í og skilning á helstu kerfum, tengingum, virkni og almennum viðmiðunum um öryggis- og aðgangskerfi hér á landi. Námskeiðið er fyrir rafiðnaðarmenn sem grunnám vegna starfa við uppsetningar og viðhaldsstörf tengdum aðgangs og öryggiskerfum. Einnig er námið góður grunnur fyrir þá sem sinna öryggisráðgjöf og sölustörfum. 

 

Öryggis- og vinnuvistfræði

Lýsing námskeiðsins samkvæmt námskrá: MÖRY4VV01(BA)

Viðfangsefni námskeiðsins er áhættumat starfa og vinnuvernd. Lögum samkvæmt ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Á niðurstöðum áhættumats skal svo gerð áætlun um heilsuvernd. Í áfanganum læra nemendur um helstu þætti sem tengjast áhættumati, framkvæmd þess, gerð vinnuverndaráætlana og þeirra jákvæðu breytinga og þekkingu sem þessir þættir skila inn í fyrirtæki. Farið er yfir grundvallaratriði í rafmagnsöryggi. Fjallað er um helstu hættur af rafmagni og áhrif rafmagns á mannslíkamann ásamt því að farið er yfir rétt vinnubrögð í og við raforkuvirki stór og smá, verklag og verkfæri til notkunar við rafmagnsvinnu. Einnig er fjallað um störf „kunnáttumanna“, hvernig staðið er að setningu og afnámi öryggisráðstafana og vinnu við rekstrareiningu í raforkukerfum. Jafnframt er farið yfir ábyrgðir, framkvæmd og samræmd vinnubrögð við rof og undirbúning vinnu við kerfishluta eða rekstrareiningar í raforkukerfum. Farið er yfir ákvæði gildandi reglugerða varðandi vinnu við raforkuvirki og túlkun þeirra. Sérstaklega er farið í gildandi verklagsreglur Mannvirkjastofnunar. 

Næstu námskeið