Reglur um hegðun, umgengni og samskipti

Litið er á nám hjá RAFMENNT eins og hverja aðra vinnu sem sinnt er af alúð og samviskusemi.
Nemendum ber að sækja allar kennslustundir stundvíslega og skila verkefnum á réttum tíma.

Áhersla er lögð á að öllum líði vel, bæði nemendum og starfsfólki. Nemendum ber að hlíta
fyrirmælum kennara og starfsfólks skólans hvað varðar nám, notkun tölva og snjall tækja,
hegðun og umgengni og gæta þess að trufla ekki vinnufrið. Kennurum og öðru starfsfólki ber
að hafa uppbyggileg og jákvæð samskipti að leiðarljósi við dagleg störf sín í skólanum.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og námsframvindu, framkomu sinni og samskiptum við
samnemendur og starfsfólk skólans. Nemendum ber að sýna nærgætni og gæta virðingar í
allri framkomu sinni. Óheimilt er að taka myndir og myndskeið í kennslustundum nema
samþykki kennara og viðkomandi nemenda liggi fyrir.

    • Einelti og annað ofbeldi er ekki liðið hjá framhaldsskóla RAFMENNTAR. Sjá forvarnar-
      og viðbragðsáætlun við einelti.

    • Nemendum ber að ganga vel um húsnæði og eigur RAFMENNTAR. Valdi nemandi
      tjóni á húsnæði eða öðrum eignum, ber honum að bæta skaðann.

    • Neysla matvæla er leyfileg í matstofu nemenda, setustofu og á göngum skólans en
      ekki í skólastofum.

    • Neysla og sala tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er bönnuð í húsnæði
      RAFMENNTAR