Námið í framhaldsskóla RAFMENNTAR er skipt upp í nám í rafiðngreinum, tæknigreinum og
faggreinum meistaraskóla. Markhópurinn í rafiðngreinar eru eldri nemendur sem af einhverjum
orsökum eru að byrja í námi í raf- og tæknigreinum eða hafa tafist í námi og eiga lítið eftir.
Einnig eru í markhópnum nemendur sem hafa flosnað frá námi og eru að koma til baka eftir
að hafa verið á vinnumarkaði.

Rannsóknir sýna að fullorðnir læra öðruvísi en ungmenni. Fullorðnir námsmenn nálgast nám
sitt yfirleitt af áhuga og þurfa að nýta reynslu sína til að læra en eru oft óöruggir. Skólinn leggur
áherslu á að skipulag námsins taki tillit til þarfa fullorðinna nemenda um að námið sé vel
jarðtengt og einstaklingsmiðað, að nemendur búi mögulega yfir óöryggi og þeirrar staðreyndar
að nemendur sinna einnig vinnu og heimili.

 

Rafiðngreinar/Rafvirkjun

Rafvirkjanámið er skipulagt eftir efnisþáttum í verkefni sem geta tengst einum eða fleiri
áföngum. Námið er verkefnastýrt þannig að skilgreindur verkefnahópur samsvarar ákveðnum
áföngum. Með því er átt við að námið stýrist af verkefnum nemandans til að ljúka áföngum.
Þannig ræðst námshraði af vinnusemi, kunnáttu og getu einstaklingsins. Þessar
kennsluaðferðir ásamt áherslu á fjarnám með vendikennslu („flipped classroom“) gera það að
verkum að nemendur geta kynnt sér námsefnið á neti áður en komið er í kennslustofu.
Nemendur vinna verkefnin og skila lausnum eftir því sem við á. Gerð verður tímaáætlun
verkefnaskila við upphaf kennslu sem verður endurskoðuð eftir framgangi. Þannig er
sveigjanleiki námsins aukinn til hagræðis fyrir nemendur sem t.d. eru í vinnu samhliða námi.
Innan starfstíma eru tvenn annarlok, desember og júní. Einkunnir eru gefnar út við annarlok
og nemendur sem ljúka námi fá útskrift. Þeir nemendur sem ekki ljúka áfanga/um innan
annarloka færast yfir á næstu önn án falls. Verkefnavinna flyst því milli anna og gerð verður ný
áætlun um lok verkefna. Sjá nánar í skóladagatali hvers skólaárs.
Kennslubúnaðurinn er mjög fjölbreyttur þar sem mikill hluti námsins er verklegur sem krefst
góðrar vinnuaðstöðu með miklum tækjabúnaði og tölvum. Stór hluti kennslubúnaðar er í
stöðugri endurnýjun og fer árlega mikið fjármagn í endurnýjun og viðhald á búnaði til kennslu.
RAFMENNT á velunnara í fjölda fyrirtækja sem með einum eða öðrum hætti styrkja skólann
við endurnýjun og nýjungar í kennslubúnaði. Námsmat er byggt á leiðsagnarmati þar sem því
er við komið. Nemendur fá umsagnir í samtali við skil verkefna og fá þá leiðsögn um úrbætur
fyrir lokaskil ef þess er þörf. Einnig er um hefðbundin próf að ræða. Námsframvinda nemenda
byggir á eigin afköstum þar sem afköst í verkefnavinnu og skil verkefna, stjórna námshraða.
Samskipti við kennara eru í formi viðtala á ákveðnum tímum en einnig með símtölum eða
tölvupósti. Viðtölin fara fram í kennslurými þegar það hentar en einnig með fjarfundi.
Nemendur hafa aðgang að húsnæði skólans þegar þeim hentar utan hefðbundins kennslutíma.
Verkefnin eru byggð á sjálfstæðri vinnu til að koma sem best til móts við eldri nemendur sem
eru í starfi. Dreifnámsformið hentar þeim nemendum vel þar sem hluti námsins fer fram í
fjarnámi og verklega náminu geta nemendur aðlagað að eigin tíma. Við skólann starfar náms-
og starfsráðgjafi sem er nemendum til aðstoðar við þau mál sem koma upp varðandi námið.

Kvikmyndatækni

Nám í kvikmyndatækni er 120 einingar. Náminu er skipt niður á fjórar annir. Námið byrjar
strax á sérhæfðum áföngum kvikmyndatækni og er námsframvinda línuleg yfir 4 annir.
Heildar einingafjöldi með fornámi er 180 einingar. Kennsla fer fram í húsnæði Stúdíó
Sýrlands. Allir kennarar eru með sérhæfingu innan hverrar námsgreinar á brautinni.


Iðnmeistaranám


Iðnmeistaranám í rafiðngreinum er 68 eininga nám á 4. hæfniþrepi íslensks hæfniramma um
menntun. Náminu er skipt upp í tvo hluta, A og B-hluta.

Í A-hluta eru grunnáfangar í rekstri, stjórnun og stofnun fyrirtækja, samtals 27 einingar. Í B-
hluta eru einnig áfangar tengdir fyrirtækjum og rekstri auk fagtengds efnis, samtals 38 einingar.
Nemendur taka A-hluta námsins og 11 einingar af B-hluta námsins í framhaldsskóla sem býður
upp á það og er það ýmist í dreifnámi/fjarnámi eða staðbundnum lotum.

Framhaldsskóli RAFMENNTAR annast kennslu í faggreinum B-hlutans fyrir raf-, rafveitu- og
rafeindavirkja. Ef öðrum hluta námsins er lokið er hægt að útskrifast sem iðnmeistari frá
skólanum.

Nemendur þurfa að ljúka hverjum áfanga fyrir sig með einkunninni 5 að lágmarki. Þeir
nemendur sem þess óska geta hafið nám í faggreinum RAFMENNTAR þótt þeir hafi ekki lokið
kjarnagreinum A-hlutans. Mælt er með að áfanginn „Grunnur að gæðahandbók“ sé tekinn á
fyrstu önn og lokaverkefni hvers hluta er unnið samhliða öðrum áföngum hlutans.