Kvikmyndataka I (KVTA1KT04(A))

Fjallað er um kvikmyndatöku frá ýmsum sjónarhornum auk þess sem farið er í aðra tengda hluti s.s. umhverfi og lýsingu. Skoðaðar eru kvikmyndatökuvélar, gerð þeirra og uppbygging. Fræði er varða ljóshita, ljósmælingar, ljós og lampabúnað ásamt öðru sem snýr að lýsingu eru skoðuð. Nemendur munu gera verklegar æfingar með vélar í stúdíói til að tryggja að þeir öðlist færni í að nota og aðlaga vélarnar að þeim verkefnum sem þeir vinna að hverju sinni.

Kvikmyndataka II (KVTA2KT04(B))

Í áfanganum er farið dýpra í efnisatriðin úr áfanganum Kvikmyndataka 1. Farið er nánar í kameruhreyfingar og mismunandi aðferðir við að hreyfa myndavélina, s.s. á teinum, með “dolly”, grip, steadycam (fjaðurstoð), á ferð og flugi. Nýjasta tækni í fjarstýrðum vélum verður skoðuð og hvaða áhrif ör þróun á tækjabúnaði hefur haft á kvikmyndatökur. Á námskeiðinu verður einnig farið frekar í tengda þætti, s.s. filtera, ljósfræði og linsufræði og mismunandi búnaður af þessu tagi skoðaður.

Kvikmyndataka III (KVTA3KT04(C))

Í áfanganum er lögð áhersla á heimildar og fræðslumyndir. Nemendur læra að velja rétta búnaðinn fyrir slíka kvikmyndatöku. Nemendur læra að vinna með staðarlýsingu án hjálparlýsingar innandyra sem utan. Æfingar eru gerðar með handhelda myndatökuvél, hreyfingar og aðra vinnslu. Skoðaðar eru ýmsar uppstillingar myndavéla og hljóðnema gagnvart þul í mynd og viðtölum. Nemendur vinna verkefni sem æfa þessa þætti og miða að því að gera nemandann eins sjálfbjarga og kostur er við erfiðar aðstæður.

Kvikmyndataka IV (KVTA3KT04(D))

Áfanginn er hluti af stóru lokaverkefni þar sem nemendur takast á við gerð stuttmyndar. Nemendur rýna handrit, gera skotlista og áætlun um framgang kvikmyndatöku á tökustað hvort sem er úti eða í stúdíó. Nemendur kafa dýpra í notkun kvikmyndatökuvélarinnar og hreyfingar hennar til að fá fram áhrif og skila tjáningu. Mikilvægt að nemendur tileinki sér fagleg vinnubrögð og skoði vel alla þætti eins og lýsingu, áferð, liti og myndform.