Námskeiðið "Lærðu að höndla LED" verður haldið mánudaginn 29. apríl nk. Á námskeiðinu verður farið yfir helstu viðfangsefni lýsingarfræðinnar. Hugtökin og fræðin á bak við litarhitastig, litarendurgjöf, ljósmagn, glýju og ljóstækni verða rædd og áhersla verður lögð á að sýna hvernig LED ljósgjafinn hefur algjörlega breytt því hvernig hönnuðir, verktakar og framleiðendur vinna með ljósgjafa. Með tilkomu LED hefur ljóstækninni fleytt áfram og farið verður yfir hvernig vinna á með þessum nýja ljósgjafa og þeim upplýsingum sem framleiðendur gefa upp fyrir lampa og ljósgjafa á heimasíðum sínum og pakkningum.

Eins verða gömlu hefðbundnu ljósgjafarnir bornir saman við LED og helsti munur á þessum ljósgjöfum ræddur og kannaður með sýnikennslu. Sýnikennslan er stór þáttur í að skilja hugtökin eins og litarendurgjöf, litarhitastig, glýju, og hvernig LED ljóstæknin er ólík hefðbundnu ljósgjöfunum eins og halógen, flúr- og glóperum. Einnig verður farið í praktískari atriði eins og skynjun á ljósi í rými, efnisnotkun og endurkast. Hverju þarf að huga að þegar lýsing er hönnuð í ákveðin rými og hvað þarf að hafa í huga við sölu og uppsetningu ljósbúnaðar. Hér er á ferðinni öflugt námskeið sem fléttar saman fræðslu og sýnikennslu á helstu hugtökum lýsingarfræðinnar og nýtist aðilum sem vilja fræðast frekar um nýja ljóstækni, hvernig á að vinna með LED ljósgjafa og öðlast betri almennan skilning á ljósi.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Rósa Dögg Þorsteinsdóttir en hún er sjálfstætt starfandi lýsingarhönnuður og með margra ára reynslu í lýsingarhönnun. Rósa Dögg kennir einnig lýsingarfræði í Háskólanum í Reykjavík og í Meistaraskólanum en hún er þekkt fyrir lifandi og fræðandi
kennslustundir. Á þessu námskeiði deilir hún reynslu sinni og gefur hagnýt ráð sem nýtast m.a. sölumönnum lampabúnaðar, arkitektum og hönnuðum sem vilja skilja betur notkun á ljósi, verktökum sem sjá um uppsetningu ljósbúnaðar og þeim sem vilja fræðast almennt um ljós.

Skráðu þig hér!