Raunfærnimat

Raunfærnimat er skipulagt ferli þar sem lagt er formlegt mat á alhliða þekkingu og færni einstaklings sem hann hefur aflað sér með t.d. starfsreynslu, námi, félagsstörfum og lífsreynslu. Raunfærnimat er mat og staðfesting á þekkingu og reynslu. Markmiðið er að einstaklingur fái viðurkennda þá raunfærni sem hann býr yfir á ákveðnum tíma. Algengast er að raunfærnimat fari fram á móti námskrá og hafa til dæmis yfir 500 einstaklingar lokið raunfærnimati á móti námskrám í iðngreinum. 

RAFMENNT hefur umsjón með verkefnunum:

  • Ertu í stuði? sem gengur út á að ná til einstaklinga sem hafa af einhverjum ástæðum ekki lokið námi sem þeir hófu í rafvirkjun, rafvélavirkjun, rafveituvirkjun eða rafeindavirkjun.
  • Ertu í hljóði? er byggt upp fyrir þá sem hafa starfað í nokkurn tíma við upptökur, hljóðvinnslu eða mögnun.
  • Ertu í ljósi? er byggt upp fyrir þá sem hafa starfað í nokkurn tíma við viðburðalýsingar utandyra, í leikhúsum og sjónvarpi.

Raunfærnimatið gengur út á að greina stöðu þátttakenda, meta færni og gefa þeim kost á að ljúka því iðnnámi sem þeir hófu á sínum tíma annars vegar og hins vegar hefur verið unnið að því að skilgreina hvaða færnikröfur hljóðmenn þurfa að uppfylla í starfi sínu.

Hluti af verkefninu er að búa til tæki til að meta raunfærni, bæði á bóklega og verklega sviðinu.
Raunfærnin er samanlögð færnin sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, námskeiðum og félagsstörfum. Þátttakendur eiga þannig kost á að láta meta þá færni sem þeir hafa aflað sér utan skólakerfisins með raunfærnimati.

Samstarfsaðilar „Ertu í stuði?“ eru:
Rafiðnaðarsamband Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Tækniskólinn skóli atvinnulífsins, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Samtök rafverktaka, Starfsgreinaráð í rafiðngreinum og RAFMENNT.

Verkefnin „Ertu í hljóði?“  og „Ertu í ljósi?“  eru unnin að frumkvæði Félags tæknifólks í rafiðnaði (FTR) en í stýrihópi sitja fulltrúar fyrirtækja  í hljóðvinnslu og ljósvinnslu auk Tækniskólans - skóla atvinnulífsins og RAFMENNTAR. 

Verkefnið er hluti af Leonardo verkefninu REVOW – Viðurkenning á gildi starfa og er unnið með styrk frá  Starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins og Starfsmenntaráði.

Raunfærnimatsferlið:

  1. Undirbúningur: Þú mætir á kynningarfund hjá RAFMENNT, sækir um, bókar og mætir í viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa*, færð að vita hvort þú eigir erindi í matið og ef svo þá byrjar þú að safna gögnum og fylla út færnimöppu.  
  2. Raunfærnimat: Þú hittir matsaðila sem leggur mat á hvort hæfni er til staðar og metur hana á móti fyrirfram ákveðnum hæfniviðmiðum gildandi námskrár. Lögð er áhersla á að þú fáir tækifæri til að koma á framfæri þekkingu þinni og færni. Þú getur verið beðin/n um að sýna færni þína, það geta verið lagðar fyrir þig lýsingar á aðstæðum og þú beðin/n að vinna úr þeim eða settar fram aðrar  aðferðir sem nýtast í því skyni að gera færni þína sýnilegri. Náms- og starfsráðgjafi* situr í matsviðtölunum nema óskað sé eftir öðru.
  3. Eftirfylgd: Að loknu raunfærnimati er farið yfir niðurstöður með þér og þér afhent staðfesting á hæfni. Þú bókar og mætir í viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa* þar sem farið er yfir næstu skref.

*Náms- og starfsráðgjafi RAFMENNTAR fylgir þér eftir í gegnum allt ferlið þ.e. frá fyrsta kynningarfundi og þar til þú hefur tekið ákvörðun um næstu skref í kjölfar raunfærnimats. 

Nánari upplýsingar:

  • Lög og reglugerð um framhaldsfræðslu.
  • Bæklingur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um raunfærnimat.
  • Einnig er hægt að hringja á skrifstofu RAFMENNTAR í síma 540-0160 (opið kl 9-12 og 13-16).