Raunfærnimat

Raunfærnimat er skipulagt ferli þar sem lagt er formlegt mat á alhliða þekkingu og færni einstaklings sem hann hefur aflað sér með ýmsum hætti utan hefðbundins skólakerfis, s.s. með starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, námskeiðum, félagsstörfum og lífsreynslu. Skilyrði fyrir þátttöku er að vera að minnsta kosti 23 ára og með að lágmarki 3 ára starfsreynslu í greininni.

Raunfærnimatið gengur út á að greina stöðu þátttakenda, meta færni og gefa þeim kost á að ljúka því iðnnámi sem þeir hófu á sínum tíma. Algengast er að raunfærnimat fari fram á móti námskrá en hluti af verkefninu er að búa til tæki til að meta raunfærni, bæði á bóklega og verklega sviðinu. Í dag hafa yfir 500 einstaklingar lokið raunfærnimati á móti námskrám í iðngreinum. 

Einnig er unnið að því að skilgreina hvaða færnikröfur fólk í tæknigreinum (hljóð og ljós) þarf að uppfylla í starfi sínu og meta raunfærni þess á móti starfslýsingu.

Náms- og starfsráðgjafi RAFMENNTAR fylgir þér eftir í gegnum allt ferlið þ.e. frá fyrsta kynningarfundi og þar til þú hefur tekið ákvörðun um næstu skref í kjölfar raunfærnimats.

 

Hér má finna kynningarmyndband um raunfærnimat sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins lét gera.

 

RAFMENNT hefur umsjón með verkefnunum:

  • Ertu í stuði? sem gengur út á að ná til einstaklinga sem hafa af einhverjum ástæðum ekki lokið námi sem þeir hófu í rafvirkjun, rafvélavirkjun, rafveituvirkjun eða rafeindavirkjun.
  • Ertu í hljóði? er byggt upp fyrir þá sem hafa starfað í nokkurn tíma við upptökur, hljóðvinnslu eða mögnun.
  • Ertu í ljósi? er byggt upp fyrir þá sem hafa starfað í nokkurn tíma við viðburðalýsingar utandyra, í leikhúsum og sjónvarpi.

 

Samstarfsaðilar:

Verkefnið „Ertu í stuði?“ er unnið í samstarfi við Rafiðnaðarsamband Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Tækniskólinn skóli atvinnulífsins, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Samtök rafverktaka, starfsgreinaráð í rafiðngreinum og RAFMENNT.

Verkefnin „Ertu í hljóði?“  og „Ertu í ljósi?“  eru unnin að frumkvæði Félags tæknifólks í rafiðnaði (FTR) en í stýrihópi sitja fulltrúar fyrirtækja í hljóðvinnslu og ljósvinnslu auk Tækniskólans - skóla atvinnulífsins og RAFMENNTAR. 

Verkefnið er hluti af Leonardo verkefninu REVOW – Viðurkenning á gildi starfa og er unnið með styrk frá  Starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins og Starfsmenntaráði.

 

Nánari upplýsingar:

  • Lög og reglugerð um framhaldsfræðslu.
  • Bæklingur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um raunfærnimat.
  • Einnig er hægt að hringja á skrifstofu RAFMENNTAR í síma 540-0160 (opið kl 9-12 og 13-16).