Útdráttur úr iðnaðarlögum

 

"Óttalegur frumskógur" eru orð sem hafa verið notuð til að lýsa því hversu erfitt geti verið fyrir iðnaðarmenn að vita hvar fá eigi svör við ýmsum spurningum sem þá snerta. Þetta stafar m.a. af því að málefni iðnaðarmanna eru a.m.k. á verksviði þriggja ráðuneyta, þ.e. iðnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis og umhverfisráðu- neytis. Í menntamálaráðuneytinu er fjallað um menntun iðnaðarmanna, m.a. námssamninga og sveinspróf. Í iðnaðarráðuneytinu er að fá upplýsingar um starfsréttindi meistara, sveina og nema, útgáfu sveinsbréfa, sem er í ráðuneytinu, útgáfu meistarabréfa, sem lögreglustjórar sjá um að fenginni umsögn iðnráðs, og starfsréttindi iðnaðarmanna í öðrum EES-ríkjum. Auk þess heyrir Löggildingarstofan undir ráðuneytið og löggildir hún rafverktaka á grundvelli rafmagnsöryggislaga í framhaldi af meistarabréfi. Undir umhverfisráðuneytið fellur hins vegar löggilding iðnmeistara á grundvelli skipulags- og byggingarlaga og námskeið sem haldin hafa verið af því tilefni.

 

Iðnaðarlögin - Nokkrar greinar úr iðnaðarlögum:

 

2. gr. Enginn má reka iðnað í atvinnuskyni á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi til þess fengið leyfi lögum þessum samkvæmt.

 

8. gr. Iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð iðnaðarráðherra, skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara. Um löggildingu skal hafa samráð við menntamálaráðherra og landssamtök meistara og sveina.

Meistari skal bera ábyrgð á að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst.

Rétt til iðnaðarstarfa í slíkum iðngreinum hafa meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni. Heimilt er sérfélögum, sveina- og meistarafélagi í sömu iðn að gera sín á milli samning um það, að ráða megi ólært verkafólk til iðnaðarstarfa undir stjórn lærðs iðnaðarmanns um ákveðinn stuttan tíma í senn, þegar sérstaklega stendur á og brýn þörf er á auknum vinnukrafti í iðninni. Einnig getur hver og einn unnið iðnaðarstörf fyrir sjálfan sig og heimili sitt, enn fremur fyrir opinbera stofnun eða fyrirtæki, sem hann vinnur hjá, ef um minni háttar viðhald á eignum þessara aðila er að ræða. Í sveitum, kauptúnum og þorpum með færri en 100 íbúa mega óiðnlærðir menn vinna að iðnaðarstörfum.

 

9. gr. Rétt til að kenna sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein hafa þeir einir, er hafa sveinsbréf eða meistarabréf í iðngreininni.

 

15. gr. Það varðar sektum:  1. Ef maður rekur iðnað, án þess að hafa leyst leyfi, eða leyfir öðrum að reka iðnað í skjóli leyfis síns. 2. Ef maður tekur að sér störf meistara, án þess að hafa leyst meistarabréf. 3. Ef maður rekur löggilta iðngrein, án þess að hafa meistara til forstöðu. 4. Ef maður kennir sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein, án þess að hafa rétt til þess samkvæmt 9. gr. 5. Ef maður eða fyrirtæki tekur nemendur til verklegs náms, enda þótt hann eða það eigi ekki rétt til þess, eða tekur nemendur til náms í annarri iðn en þeirri, sem hann er meistari í, eða heldur nemendur án löglegs samnings. Sektir renna í ríkissjóð.